Renndu munirnir voru t.d. skálar, vasar og krukkur. Voru þeir hlutir gjarnan útskornir og skreyttir á ýmsan hátt, t.d. með íslenskum steinum. Í dag eru leirmunirnir enn renndir á snúningsskífum í Listvinahúsinu, en rúmlega 20 ár eru síðan hætt var að nota mótin. Ekki eru til sölu í Listvinahúsinu í dag gamlir leirmunir. Hins vegar er vel hægt að hafa samband, eða koma við, og fá ráðleggingar um gamla muni, hvort sem það er vegna viðgerða eða annars. Allir leirmunir Listvinahússins í dag eru handgerðir og þar með einstakir. Þeir eru af ýmsun toga. Sumir eru útskornir, aðrir eru með hrauni, margir eru holir svo hægt sé að setja kerti inní þá. Má þar m.a. nefna víkinga og ljós. Í Listvinahúsinu er að finna handgerða muni úr fyrsta flokks hráefnum. Mikill metnaður er lagður í hvert smáatriði og þannig fást einstakir módelsmíðaðir leirmunir.
Fyrsti leirbrennsluofninn í Listvinahúsinu kom til Íslands 1930. Hann var kolakynntur. Rafmagnsofn var svo byggður árið 1940. Ofninn var smíðaður á staðnum og var hann gólffastur. Ofnarnir sem í dag eru notaðir í Listvinahúsinu eru tveir Podmore ofnar sem keyptir voru 1975.
|