Listvinahúsið er elsta listasmiðja landsins, stofnað árið 1927 af listamanninum Guðmundi Einarsyni frá Miðdal.  Var Listvinahúsið fyrst staðsett á Skólavörðuholtinu en árið 1964 fluttist það að Skólavörðustíg 43, þar sem það er enn þann dag í dag. 

Til að byrja með var leirinn sem notaður var í Listvinahúsinu íslenskur. Var hann m.a. fenginn úr Búðardal og af Reykjanesinu.  Til að hægt væri að nýta leirinn til framleiðslu leirmuna þurfti að taka hann í gegnum leirvél, sem fyrst um sinn var staðsett í Listvinahúsinu á Skólavörðuholtinu.  Í kringum 1948 var leirvinnslan flutti sunnan megin í Öskjuhlíðina, þar sem notaðar voru danskar leirvinnsluvélar sem þar höfðu verið settar niður.  Íslenski leirinn var notaður í Listvinahúsinu til 1960, eða allt þar til farið var að flytja inn leir.

Ýmsar tegundir glerunga hafa í gegnum tíðina verið notaðir í Listvinahúsinu. Fyrst um sinn var Greiner glerungur fluttur inn frá Þýskalandi og notaður á leirmunina.  Á árunum 1930-1950 var notaður glerungur frá Englandi sem hét Blyth Color Works.  Síðar var notaður danskur glerungur frá M.O. Knudsen og loks Degussa glerungur frá Þýskalandi.

Hægt er að skipta leirmunum Listvinahússins í tvennt.  Annars vegar voru útbúnir hlutir úr mótum (þrykktir) og hins vegar renndir munir.  Þrykktu hlutirnir voru m.a. styttur hverskonar; t.d. spendýr og fuglar, auk kertastjaka, öskubakka, o.þ.h.

1 | 2 | 3