Fjöldi manns hefur starfað í Listvinahúsinu í gegnum tíðina.  Auk Guðmundar frá Miðdal vann Lydia Pálsdóttir eiginkona hans í Listvinahúsinu. Hún hafði lært leirkerasmíði í Þýskalandi áður en hún kom til Íslands.  Auk þess að renna leirmuni skar hún út og málaði.  Ýmsir aðrir unnu í Listvinahúsinu, ýmist sem leirkerasmiðir, lærlingar eða aðstoðarfólk.  Má þar m.a. nefna Svein Einarsson, bróðir Guðmundar, Baldur Ásgeirsson, Ragnar Kjartansson og Einar, son Guðmundar.  Fjöldi annarra komu að leirmunagerðinni og afgreiðslu í Listvinahúsinu.

Árið 1955 tók sonur Guðmundar, Einar, við fyrirtækinu.  Hann breytti eftir það nokkuð um stíl; vasar og aðrir hlutir urðu nútímalegri í lagi og lit.  Á árunum 1971 til 1975 lærði sonur Einars, Guðmundur, til leirkerasmiðs og keypti svo af föður sínum fyrirtækið árið 2004 – eftir að hafa unnið þar samhliða föður sínum í mörg ár. Í dag vinna feðgarnir báðir við það að renna leirmuni fyrir Listvinahúsið.

Samfellt frá stofnun hefur fyrirtækið verið starfandi og má því með sanni segja að Listvinahúsið sé elsta listasmiðja landsins.  Allt frá stofnun hefur sama fjölskyldan rekið fyrirtækið, í beinan karllegg, í þrjár kynslóðir. 

1 | 2 | 3